Einfaldur, silkimjúkur og guðdómlega góður heimagerður HUMMUS.
HUMMUS er hægt að nota sem meðlæti, ídýfu, ofan á flatköku eða súrdeigsbrauð eða hvað sem er, hann er svo góður.
Við mælum sérstaklega með að fjárfesta í góðu tahini, til dæmis það sem er myndað hér fyrir neðan úr Istanbúl market á Grensásvegi.
Satt að segja gerum við tvöfalda uppskrift í hvert skipti þar sem við notum hummus í svo margt.


Hráefni
- 1 dós kjúklingabaunir eða 80gr af þurrkuðum ef notaðar eru baunir úr poka (verður ca 240gr þegar búið er að leggja í bleyti og sjóða)
- 125 gr gott tahini
- 2 hvítlauksgeirar, smátt skornir og snögglega steiktir upp úr steikningarolíu
- Sítrónusafi úr einni sítrónu
- 1 tsk cumin krydd
- Salt
- Toppur, sett ofan á humusinn:
- Nokkrar kjúklingabaunir
- Steinselja
- Sumac krydd (val)
- Góð ólífuolía
Aðferð
- Sigtið kjúklingabaunirnar frá safanum og setjið safann til hliðar*
- Fjarlægið húðina af kjúklingabaununum – þetta gerir hummusinn silkimjúkann
- Setjið öll hráefnin í blandara eða matvinnsluvél
- Leyfið blandaranum að vinna á miðlungsstillingu þangað til hummusinn verður mjúkur
- Þynnið hummusinn ef þarf með ísköldu vatni
- Smakkið til með salti, sítrónusafa, cumin kryddi og jafnvel auka hvítlauksgeira eða smávegis af tahini
*ef notaðar eru þurrkaðar baunir þarf að fylgja eftirfarandi skrefum :
- Leggðu baunir í bleyti með vatni og 1 tsk matarsóda yfir nótt
- Taktu vatnið af og settu baunirnar í pott ásamt vatni og 1 tsk matarsóda og leyfðu að sjóða í 20-30 mín eða þar til baunirnar verða alveg mjúkar (hægt að kremja milli tveggja putta)
- Sjáið á myndbandinu hér fyrir neðan hvernig hýðið flýtur í vatninu – taktu það frá og passaðu að detta ekki í einhverja smámunasemi – það er allt í góðu þó eitthvað hýði sé eftir!

Verði ykkur að góðu.
